Einn þekktasti blómaskreytingameistari Japans kynnir og kennir japanska blómaskreytingahefð

Ikenobo

Laugardaginn 8. september kl. 13.00 mun Yuki Ikenobo einn þekktasti blómaskreytingameistari Japan, flytja opinn fyrirlestur um blómalisthefðina Ikenobo, sem er 550 ára gamalt afbrigði af Ikebana aldagamalli blómaskreytingahefð Japana.

(www.ikebanabyjunko.co.uk/history.htm). 

Kl. 14.00 hefst síðan tveggja klst. vinnusmiðja sem aðeins 20 geta sótt, en þar mun Yuki Ikenobo kenna blómalistskreytingar. Hvort tveggja er án endurgjalds og í boði Ikenobo blómaskreytingaskólans og Japan Foundation (www.jpf.go.jp/). Uppfært: Fullt er í vinnusmiðjuna en sýnikennsla verður einnig á fyrirlestrinum. Óþarfi er að skrá sig á fyrirlesturinn. 

Fyrirlesturinn og vinnusmiðjan, sem haldin eru sem hluti af Hírósíma-Nagasaki sýningunni í Borgarbókasafninu v. Tryggvagötu,  verða í sama húsi, en í sal  Ljósmyndasafns Reykjavíkur á 6. hæð. 

Yuki Ikenobo er í 46. ættlið blómaskreytingalistamanna (www.ikenobo.jp/english). Fjölskylda hennar hefur í 550 ár stundað þessa listgrein og rekur í dag Ikenobo blómaskreytingaskólann, en í dag starfa um eitt hundrað Ikenobo félög og námshópar um allan heim. Yuki Ikenobo er jafnframt kjörræðismaður Íslands í Kyóto.

Frá fyrirlesaranum:
„Ikebana er blómaskreytingalistgrein sem á uppruna sinn í Japan, er fáguð menningarhefð sem ræktar alúð og tillitssemi við náttúruna, dýpkar sjálfsvitund og göfgar mannlegt eðli. Ikebana er einnig andleg afstaða. Sagt er  „Í hinu fáa felst djúp merking“. Í stað blóma í fullum blómskrúða, felst í ikebana sú afstaða hjartans að kunna að meta vilja hins smæsta blóms til blómgunar örsmárra blóma. Í fornöld litu Japanir svo á að guðir byggju alls staðar í náttúrunni svo sem í trjám og steinum. Á 7. öld þegar Búddatrú var innleidd í Japan fylgdi sá búddíski siður að fórna blómum. Þessar tvær hugmyndir runnu saman í þá blómaskreytinga- og blómasýningahefð sem kallast Ikebana. Hefð sem er í miklum metum víða um heim.“

Pdf kynning á Ikebana: Veggspjaldakynning Ikebana: Yuki Ikenobo