Sýningin opnuð á Háskólatorgi Háskóla Íslands

Háskóladagurinn 2010

Þann 18. september var sýningin opnuð á jarðhæð Háskólatorgs Háskóla Íslands og mun hún verða þar til og með 9. október. Sýningin verður síðan í Hofi á Akureyri frá 13. – 29. október. Strax á fyrsta degi vakti hún mikla athygli stúdenta við Háskóla Íslands, sem á hverjum degi fara í gegnum sýningarrýmið hundruðum saman. Við opnunina, sem einkum var ætluð nemendum og kennurum Háskólans fluttu ávörp Ólafur Þ. Harðarsson prófessor og sviðsforseti fyrir hönd háskólarektors, hann las einnig upp þakkar- og kveðjubréf forstjóra Nagasaki minningarsafnsins Masanobu Chita til Háskóla Íslands, Gunnella Þorgeirsdóttir aðjúnkt í japönsku bar kveðjur japönsku deildarinnar, en Auður Hauksdóttir dósent og stjórnarformaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur stýrði athöfninn .

Sýningin er haldin í H.Í. á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og kemur frá  Borgarbókasafni. Þar heimsóttu um 5.300 gestir sýninguna, þar af um 1.100 grunnskólanemar ásamt kennurum, sem unnu verkefni út frá sýningunni. Von er á um 250 grunnskólanemum til viðbótar til Háskólans, auk nemenda úr framhaldsskólum, en þeim hefur verið sérstaklega boðið. Kennarar í Stjórnmálafræðideild Háskólans hafa einnig skilgreint verkefni sem þeirra nemendur munu vinna í tengslum við sýninguna.
Þann 4. október verður opinn fundur í H.Í. um stöðu og horfur varðandi útrýmingu kjarnavopna. Fyrirlesari verður Gareth Evans prófessor, háskólarektor og fyrrverandi utanríkisráðherra Ástralíu, sem hefur um árabil verið í forystu samningaumleitana á alþjóðavettvangi um útrýmingu kjarnavopna (
http://www.gevans.org/).