Eyðilegging af völdum kjarnorkusprengnanna

Hírósíma Nagasaki
Tímasetning sprengjunnar 8.15 f.h.6. ágúst 1945 11.02 f.h.9. ágúst 1945
Fjöldi látinna áætlaður í lok desember 1945 Um 140.000(Í borginni bjuggu um 350.000 manns) Um 74.000(Í borginni bjuggu um 240.000 manns)

Megin einkenni eyðileggingarinnar

1. Gífurleg eyðilegging

Við kjarnaklofnun leysist úr læðingi óhemju orka, margfalt meiri en við sprengingar hefðbundinna vopna.  Samlegð ofurhita, sprengikrafts og geislavirkni leiðir af sér mikla eyðileggingu og dauða alls sem kvikt er í næsta nágrenni.

2. Eyðilegging samstundis og án þess að farið væri í manngreinarálit

Kjarnorkusprengjurnar gjöreyðilögðu á örskotsstundu gríðarlegt magn mannvirkja. Fjöldi fólks lét lífið jafnt hermenn, almennir borgarar, konur, börn og gamalmenni.

3. Langtímaskaði

Auk þess að missa fjölskyldu, nágranna, heimili, vini og vinnustaði glíma þeir, sem eftir lifðu, stöðugt við afleiðingar geislavirkni. Þeir lifa í ótta við að fá hættulega sjúkdóma af völdum geislavirkni.

Þættir orkunnar sem kjarnorkusprengjur leysa úr læðingi

Sú orka sem kjarnorkusprenging leysir úr læðingi skiptist þannig að um 50% er höggbylgja sem myndast, 35% hitageislun og 15% geislavirkni. (Upphafs geislavirkni 5%, langtíma geislavirkni 10%)

Skemmdir á byggingum Hírósíma

Nær öll borgin eyðilagðist, því sprengjan sprakk við miðborgina og 85% bygginga borgarinnar voru í innan við 3 km radíus. Meira en 90% bygginganna hrundu eða brunnu niður.

Skemmdir á byggingum Nagasaki

Allar byggingar sem stóðu innan 1 km radíusar frá sprengjustaðnum hrundu til grunna og viðarhús og byggingar innan 4 km radíusar hrundu að minnsta kosti að hluta. Einn þriðji borgarinnar brann til grunna.

Þegar kjarnorkusprengjan sprakk, varð hitinn á sprengjustaðnum yfir milljón gráður á celsíus. Á einni sekúndu varð eldhafið 280 metrar í þvermál. Það sendi frá sér hitageisla í allar áttir og var hiti þeirra á nálægu svæði um 3.000 til 4.000 gráður á celsíus (járn bráðnar við 1.536 gráður).

Skemmdir af völdum höggbylgjunnar

Ofur þrýstingur sem var mörg þúsund loftþyngdir skapaðist á staðnum þar sem sprengjan sprakk. Andrúmsloftið umhverfis þandist út og skapaði höggbylgju með gífurlegan vindhraða.

Á staðnum þar sem sprengjan sprakk var þrýstingur frá höggbylgjunni 35 tonn á fermeter og vindhraðinn var 440 metrar á sekúndu.

Höggbylgjan braut niður nær allar viðarbyggingar í 2 km radíus. Og nærri sprengjustaðnum hrundu stálstyrkt, steypt mannvirki.

Eyðilegging af völdum elda frá ofurháum hita

Þegar kjarnorkusprengjurnar sprungu kveikti ofurhár hiti í öllu sem brunnið gat nærri staðnum þar sem þær sprungu. Í rústum hruninna húsa kviknaði ennfremur í út frá eldhústækjum og eldurinn varð óviðráðanlegur.  Eldsvoðinn breiddist út um borgirnar og brann fram eftir nóttu. Í Hírósíma brann til grunna allt sem brunnið gat á um 13 ferkílómetra svæði og í Nagasaki á um 6.7 ferkílómetra svæði.  Svæðið, sem brann í Hírósíma, var stærra vegna staðbundinna aðstæðna.

Skaði á líkömum fólks

Þeim skaða sem kjarnorkusprengjur valda er skipt í tvo flokka, bráðaskaða og langtíma skaða. Flestir bráðaskaðar stöfuðu af flóknu samspili hitageislunar og eldsbruna, innvortismeiðsla og rifins holds eða brota vegna höggbylgna frá sprengjunni, svo og geislavirkni. Væri skaðinn læknanlegur átti það sér stað á fjórum til fimm mánuðum eftir sprengingarnar.   Með langtíma- eða „eftiráskaða” er átt við einkenni sem komu fram eftir að fólk hafði náð sér af bráðaskaða.

Bráðaskaði

Skaði af völdum hitageislunar og bruna; Skaði af völdum höggbylgjunnar; Innvortis meiðsl, tætt hold og brotin bein; Skaði af geislavirkni; Þreyta, ógleði, hármissir, blæðingar

Eftirá- eða langtímaskaði

Arta (ofholdgaður örvefur á húð), hvítblæði, drer eða ský á auga er veldur blindu, illkynja æxli

Brunasár af völdum kjarnorkusprengnanna

Vegna hitageislunar og elds

Þeir sem staddir voru í innan við 1.7 km radíus frá sprengjustað hlutu lífshættuleg brunasár. Húð og undirliggjandi líkamsvefir brunnu. Innri líffæri skemmdust. Flestir dóu strax eða innan fárra daga.

Næstum hver einasta bygging hrundi og þúsundir grófust undir rústunum. Þar brunnu þeir til dauða, ófærir um að komast út úr rústunum.

Skaði vegna höggbylgju frá kjarnorkusprengjunni

Höggbylgjan frá sprengjunni þeytti þúsundum manna upp í loftið.  Húð þeirra, skaðbrennd af hitageislunum flettist af og hékk í ræmum af líkömunum. Rúður brotnuðu í þúsundir mola og margir voru þaktir glerögnum um allan líkamann.

Skaði vegna geislavirkni

Bráðaeinkenni

Geislavirknin frá kjarnorkusprengjunum náði djúpt inn í líkama fólks, eyðilagði frumur, olli því að dró úr blóðmyndun mergs, lungu og lifur eyðilögðust, auk þess að valda margs konar öðrum skaða.  Geislavirkni á fyrstu mínútu eftir að sprengjan sprakk var bannvæn fyrir alla sem voru staddir í um 1 km radíus frá sprengjustaðnum. Flestir á því svæði létust á örfáum dögum. Margir sem í fyrstu virtust óskaddaðir, veiktust og dóu all mörgum dögum eða mánuðum síðar. Þúsundir sem komu til borganna til hjálpar, veiktust með svipuðum hætti og þeir sem urðu fyrir beinum áhrifum sprengjanna. Margir þeirra létust.

Meðal fyrstu áhrifa af geislavirkni var eyðilegging frumna og minnkun á blóðframleiðslu, eyðilegging líffæra, veiking ónæmiskerfis og hármissir.

Eftiráverkan – Langtímaáhrif

Flest bráðasár eða –skaði, annaðhvort leiddu til dauða fórnarlambanna eða læknuðust á fjórum til fimm mánuðum. Eftiráverkan, þar á meðal aukning hvítblæðis fimm til sex árum eftir sprengjurnar, hafa valdið miklum erfiðleikum margra. Algengustu eftirverkanir eru: arta (ofholdgaður örvefur) drer eða ský á augasteini er veldur blindu, hvítblæði, auk krabbameina í skjaldkirtli, brjóstum, lungum og víðar.  Allnokkur fóstur í móðurkviði fæddust með óeðlilega lítil höfuð og fylgdi því oft andlegur vanþroski. Við eigum enn eftir læra margt um langtímaáhrif geislavirkni á mannslíkamann. Við vitum þó að þeir sem lifðu af eru stöðugt að kljást við eftirááhrif geislavirkni.

Illkynja æxli

Í ljós kom að á ákveðnum tímapunktum jókst greining tiltekinna krabbameina: Hvítblæði frá árinu 1950, skjaldkirtilskrabbamein frá 1955, brjósta- og lungnakrabbamein frá 1965, krabbamein í mótefnamyndandi eitilfrumum blóðs, s.n. mergæxlager (multiple myelomas), maga- og ristilkrabbamein frá 1975.

Sannað er að geislavirkni er hér orsök. Vísindamenn hafa sýnt fram á að tíðni sjúkdómanna ræðst af fjarlægð viðkomandi einstaklinga frá staðnum þar sem sprengjurnar sprungu.

Varnarlaus í móðurkviði

Kjarnorkusprengjurnar höfðu áhrif á fóstur í móðurkviði. Mörg létust fyrir fæðingu og þau, sem fæddust án þess að skaðar sæjust, dóu einnig fyrr en ella. Sum fóstur mæðra, sem voru staddar nærri sprengjustaðnum og sem voru á fyrri stigum meðgöngu, fæddust með óeðlilega smá höfuð. Slík höfuð kallast dverghöfuð (microcephaly) eða höfuðsmæð, og þeim fylgja oft margskonar takmarkanir á vitsmunum, sem gera einstaklingunum erfitt að lifa eðilegu lífi án aðstoðar.