Um sýninguna

Kjarnorkuárásirnar á Hírósíma og Nagasaki árið 1945 og afleiðingar þeirra Ljósmyndir, fræðsluefni, munir

Fræðslu- og ljósmyndasýning um kjarnorkusprengjurnar sem varpað var á Hírósíma og Nagasaki og afleiðingar þeirra verður opnuð í Borgarbókasafni Reykjavíkur við Tryggvagötu fimmtudaginn 9. ágúst kl. 19.30 og er opin það kvöld til kl. 22.00, en þá geta gestir gengið til Tjarnarinnar þar sem kertafleyting í minningu fórnarlambanna hefst kl. 22.30. Á sýningunni eru munir frá atburðunum, áhrifamiklar ljósmyndir og fræðsluefni. Við kertafleytinguna við Tjörnina flytur Inosuke Hayasaki, 81 árs gamall Japani, ávarp, en hann lifði af kjarnorkusprenginguna í Nagasaki og var staddur í um kílómeters fjarlægð frá staðnum þar sem sprengjan féll. Hann flytur einnig opinn fyrirlestur í Háskóla Íslands í dag miðvikudag kl. 17.15 í Odda 101. Sýningin verður í Borgarbókasafninu til 13. september, í Háskóla Íslands frá 14. september til 9. október og í Hofi  á Akureyri 13.-29. október.

Fræðslu- og ljósmyndasýning um kjarnorkusprengjurnar sem varpað var á Hírósíma og Nagasaki og afleiðingar þeirra var opnuð í Borgarbókasafni Reykjavíkur við Tryggvagötu fimmtudaginn 9. ágúst kl. 19.30,  en kl. 22.30 þann sama dag var haldin kertafleyting við  Tjörnina  í minningu fórnarlambanna . Á sýningunni í Borgarbókasafni voru munir frá atburðunum, áhrifamiklar ljósmyndir og fræðsluefni. Við kertafleytinguna við Tjörnina flutti Inosuke Hayasaki, 81 árs gamall Japani, ávarp, en hann lifði af kjarnorkusprenginguna í Nagasaki og var staddur í um kílómeters fjarlægð frá staðnum þar sem sprengjan féll. Hann flutti einnig opinn fyrirlestur daginn áður  í Háskóla Íslands. Sýningin var  í Borgarbókasafninu til 13. september, opnaði  (án munanna frá sprengjunum) í  Háskóla Íslands 17. september og stóð til  9. október. Í Reykjavík sóttu hátt í 10.000 manns sýninguna þar af um 1.500 grunn- og framhaldsskólanemar með sínum kennurum.  Sýningin  opnaði  loks  í Hofi – menningarhúsi  á Akureyri  þann 13. Október og stendur til 29. október. Til skoðunar er að sýningin fari á fleiri staði úti um land eftir sýninguna í Hofi.

Sýningin fjallar á áhrifamikinn hátt um geigvænleg áhrif kjarnorkusprenginganna á íbúa og mannvirki í Hírósíma og Nagasaki. Alls létust strax eða á fyrstu mánuðunum eftir að sprengjurnar féllu um 214.000 manns og álíka margir hafa fram til ársins 2011 látist af eftirköstum kjarnorkuárásanna. Enn þjást um 227.500 manns sem bjuggu í Hírósíma og Nagasaki árið 1945 vegna sjúkdóma sem raktir eru til sprenginganna. Á sýningunni er m.a. fjallað um skammtíma- og langtímaáhrif kjarnorkusprenginga á líf og heilsu, áhrif tilrauna með kjarnavopn á menn og dýr og um tilraunir til samningagerðar á alþjóðavettvangi um takmörkun og eyðingu kjarnavopna.

Sýningin kemur hingað frá Nagasaki minningarsafninu, Nagasaki National Peace Memorial Hall for the Atomic Bomb Victims, sem starfar á vegum japanska velferðarráðuneytisins og hefur það hlutverk að varðveita minningu þeirra sem létust vegna kjarnorkuárásanna í Nagasaki og Hírósíma og beita sér fyrir útrýmingu kjarnavopna með fræðslu og upplýsingamiðlun. Samstarfsaðilar á Íslandi eru utanríkisráðuneytið,  Borgarbókasafn Reykjavíkur, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Menningarhúsið Hof  á Akureyri, sendiráð Japans á Íslandi, Íslensk-japanska félagið, Takanawa ehf. og Samstarfshópur friðarhreyfinga.

Í tengslum við sýninguna hafa  verið margs konar viðburðir, sem lesa má um á heimasíðunni . Þar má sérstaklega nefna nemendaverkefni fyrir 10. bekk grunnskóla sem Halldór Björgvin Ívarsson kennari vann út frá sýningunni og námsskrám 10. bekkjar. Verkefnið er ásamt leiðbeiningum á heimasíðunni undir Fræðsla fyrir skóla. Kennurum í samfélags- og náttúrufræðigreinum er sérstaklega boðið og þeir hvattir til að vinna verkefnið með nemendum, en í Japan ríkir sú hefð að öll skólabörn heimsækja minningarsöfnin um kjarnorkuárásirnar.

Japönsk pappírslist (Origami) tengist viðfangsefni sýningarinnar og komu  samtökin Origami Ísland að þeim þætti. Sýningin var framlag Borgarbókasafnsins á Menningarnótt í Reykjavík 18. ágúst og vooru viðburðir á sýningarsvæðinu sem tengjast japanskri menningu með aðstoð Japana sem búa á Íslandi. Hinn 8. september kynnti einn fremsti blómaskreytilistamaður (Ikebana) Japans, Yuki Ikenobo, meistari í sínu fagi í 46. ættlið, þessa aldagömlu list Japana. Hún er einnig kjörræðismaður Íslands í Kyoto.

Hinn 4. október var opinn fundur í Háskóla Íslands um stöðu og horfur varðandi útrýmingu kjarnavopna með sérstökum heiðursgesti, Gareth Evans, rektor Australian National University og fyrrverandi utanríkisráðherra Ástralíu, en hann hefur lengi verið í forystu þeirra sem berjast fyrir útrýmingu kjarnavopna. Fyrirlestur hans er á heimasíðunni.

Fimmtudagskvöldið 9. ágúst kl. 00.10 sýndi RÚV heimildarmynd um baráttuna gegn kjarnavopnum, In My Lifetime: A Presentation of the Nuclear World Project (http://thenuclearworld.org/about/the-film/).

––––––––––––––––––––––

Framkvæmd og skipulagningu sýningarinnar fyrir hönd Nagasaki minningarsafnsins annast fyrirtækið Takanawa ehf. Tengiliður fyrir þeirra hönd er Margrét S. Björnsdóttir sími 8677817.